Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Tengsl AGS og Icesave

Margir fárast yfir því að AGS skuli fresta því að taka afstöðu til lánafyrirgreiðslu til Íslands þangað til Icesave málið er leyst.

"Óskiljanlegt", var það kallað í Silfrinu um daginn. Egill Helgason hefur sagt það hroka hjá AGS, að segja ekki Íslendingum umbúðalaust hvernig er í pottinn búið. Og nú síðast tók Össur Skarphéðinsson Dominique Strauss-Kahn í kennslustund: "Ég sagði honum jafnframt að það væri óviðunandi ef Icesave-málið hefði áhrif á afgreiðslu AGS. Sú deila kæmi sjóðnum ekki við." (Fbl. 29/9/09 bls. 2)

Ég tek það hér með að mér að útskýra hvers vegna AGS mun aldrei afgreiða hingað lán fyrr en Bretar og Hollendingar eru sáttir:

 

Raunveruleg stjórn AGS heitir executive board. Þar sitja 24 executive directors og véla meðal annars um afgreiðslu lána. Ákvarðanir eru öllu jöfnu teknar án atkvæðagreiðslu, þannig að allir þurfa að vera sammála. Í einstaka tilfellum eru ákvarðanir teknar með atkvæðagreiðslu, og þá þarf 85% atkvæða til að taka ákvörðun. (85% mörkin eru ekki ótengd því að Bandaríkin hafa 16% atkvæða.)

Fimm lönd hafa fastafulltrúa. Eitt þeirra er Bretland, fulltrúi þess heitir Alex Gibbs og fer með 5% atkvæða. 19 hópar landa hafa sameiginlega fulltrúa. Fulltrúi eins þessarra hópa er Hollendingurinn Age F.P. Bakker, hann fer með 5% atkvæða.  

Ef það ætti að knýja eitthvað í gegnum AGS án samþykkis Breta og Hollendinga þyrfti semsagt að gera það með atkvæðagreiðslu og svotil öllum greiddum atkvæðum annarra en Breta og Hollendinga.  

 

Það er í fyrsta lagi nánast óhugsandi að fá það í gegn að ákvarða eitt eða neitt í atkvæðagreiðslu gegn vilja eins of fastafulltrúunum. Og í öðru lagi er algjörlega óhugsandi að Íslandi tækist að sannfæra alla aðra en Breta og Hollendinga um að standa með litla Íslandi gegn vilja þessarra stórþjóða. 

Það væri þess vegna algjörlega tilgangslaust að fara að setja Ísland á dagskrá stjórnar AGS áður en Bretar og Hollendingar eru tilbúnir til þess að afgreiða lánið. 

 

Dominique Strauss-Kahn hefur ekkert um þetta að segja.  Ég veit ekkert hvort hann vill afgreiða lán til Íslands gegn vilja Breta og Hollendinga. Það skiptir engu máli. Hann ræður engu um það frekar en aðrir starfsmenn AGS. 

 

Réttlæti, sanngirni, hroki og annað þess líkt koma þessu jafn lítið við. Alþjóðastjórnmál eru ekki sókratísk samræða, þar sem hið rétta og sanna er leitt út. Þau eru hagsmunabarátta, og ríki gera það sem þau komast upp með til að vinna sínum hagsmunum brautargengi. 

 

Semsagt er rétt að halda þessu til haga: það er ekki AGS sem er að fresta lánafyrirgreiðslu til Íslands. Það eru Bretar og Hollendingar.  


Skólalóðarstjórnkænska

Björgvin G. Sigurðsson gefur í skyn að ríkisstjórn Íslands hafi ætlað að blekkja þá bresku til að halda að innistæður í Landsbankanum væru tryggðar, en svo ætlað að hlaupast frá ábyrgðinni seinna.

 

Kannski fara menn bráðlega að geta giskað sér til um einhverjar af ástæðum þess að íslenska ríkið fylgdi Landsbankanum á hryðjuverkalistann.


mbl.is Fjórir ráðherrar breyttu bréfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdajafnvægi

Elvira Mendez segir að sér misbjóði sú málsmeðferð ESB í Icesave málinu, að líta ekki á Ísland sem ESB ríki. Í stað þess að hrúga yfir okkur peningum, eins og Ungverja, hafi ESB neitað að skipta sér af. Þar með hafi Bretar, Hollendingar og Þjóðverjar fengið frjálsar hendur til að berja á okkur. 

Þetta er áhugavert, svo ekki sé meira sagt.

---

Eitt sinn fyrir mörgum árum sá ég viðtal við Baldur Þórhallsson í Sjónvarpinu. Hann var spurður hversu mikil áhrif Ísland myndi hafa í ESB - eða kannski var hann spurður almennt um smáríki. Hann svaraði því til að formlega séð hefðu öll ríki jafnt vægi í ESB. (Allar mikilvægar ákvarðanir eru teknar af ráðherraráðunum. Þar hefur hvert ríki einn ráðherra og neitunarvald.)

Formlega séð. Í raun, sagði Baldur, hafa stóru ríkin meiri völd, því þau eru stór og hafa í krafti þess meiri völd á öllum sviðum alþjóðasamskipta. Ein ástæðan er að þau hafa stærri, öflugri og sérhæfðari stjórnsýslu. Í stórveldi eru herir  manna sérhæfðir í því að fást við málaflokka sem á Íslandi er sinnt í hjáverkum af einum og einum ráðuneytisstarfsmanni.

Íslendingar myndu geta beitt sínu formlega valdi í ráðherraráðinu til þess að hafa mikil áhrif á málaflokka eins og fiskveiðar, sem flestum öðrum ESB ríkjum er nokk sama um. En við þyrftum að lúta því að önnur ríki eru sterkari en við á flestum sviðum. (Á sama hátt og við töpum fyrir Englendingum og Hollendingum í fótbolta, en vinnum þá í handbolta, því við höfum, sem þjóð, sérhæft okkur í honum.)

---

Þetta er ekki bundið við ESB. Þvert á móti: ESB er reglustýrt kerfi, með óháðum dómstól og eigin yfirþjóðlegri stjórnsýslu, og þess vegna vettvangur af því tagi sem gefur smáríkjum best færi til þess að standa uppi í hárinu á stærri ríkjum. Eins og Elvira Mendez gefur til kynna: ef við hefðum verið meðhöndluð sem ESB ríki, hefðu málalyktir líklega verið öðruvísi. 

Það mætti frekar segja, að þetta valdaójafnvægi sé grundvallarregla í alþjóðasamskiptum, sem við Íslendingar höfum fengið að finna illilega fyrir í tengslum við bankahrunið. Og gildi í mun frekari mæli utan ESB en innan þess.

Í tengslum við bankahrunið, tilraunirnar til þess að 'redda' öllu án aðkomu AGS, Icesave málið og fleira, var oft talað um vinaþjóðir Íslands. Hvernig gátu Bretar beitt okkur þeim hrottaskap sem þeir gerðu, áttu þeir ekki að heita að vera vinir okkar? Hvað með 'vinaþjóðir' okkar á Norðurlöndum - af hverju hjálpuðu þær okkur ekki? Ef marka má frásagnirnar í Hruninu voru stjórnvöld steinhissa á því hversu lítil vinarþel nágrannaríkja okkar var í garð Íslands þegar á reyndi.

Þessi umræða og þessi hugtakanotkun var innihaldsrýr. Því í alþjóðastjórnmálum er vinátta ákaflega lítils virði. Í alþjóðastjórnmálum er það fyrst og fremst réttur hins sterka sem ræður. Lögfræði og sanngirnisrök mega sín lítils. Eins og Þúsidides lagði Aþenumönnum í munn fyrir nokkur þúsund árum síðan, í samtali við íbúa litla eyríkisins Melos: "réttur kemur aðeins til álita í samskiptum jafn máttugra, hinir sterku gera það sem þeir geta gert og hinir veiku þola það sem þeir þurfa að þola."

Þetta fundum við þegar hryðjuverkalögunum var beitt gegn okkur. Þegar leitað var lána hjá 'vinaþjóðum' okkar. Þegar Icesave samningar voru orðnir að skilyrði fyrir fyrirgreiðslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Þegar Árni M. Mathiesen var plataður af Hollendingum til þess að lofa að greiða ofurvexti af Icesave skuldbindingunni.Og nú er því haldið fram að Svavar Gestsson hafi ekki verið jafnoki þeirra sem hann samdi við. Það hefði ekki átt að koma neinum á óvart, með fullri virðingu fyrir Svavari og Indriða. 

Þetta hafa margar þjóðir fundið á undan okkur. Melosarbúar reyndu, í frásögn Þúsidídesar, að bjóða Aþeningum birginn, með þá von í huga að öðrum þjóðum myndi misbjóða það óréttlæti sem Aþenumenn beittu þá, og koma Melosarbúum til hjálpar. Viðureigninni lauk öðruvísi en Melosarbúar höfðu vonað. Bretar og Hollendingar eiga hvorir tveggja langa röð fórnarlamba að baki. Svo mætti lengi telja. Hver er sjálfum sér næstur í alþjóðastjórnmálum.

Það merkilegasta er kannski að svo virðist sem íslenskir stjórnmálamenn hafi ekki skilið þetta. Kannski gerðu þeir það ekki: frásagnirnar í Hruninu líkjast óneitanlega frásögnum af fumandi og óöruggu fólki, sem ekki gerði sér grein fyrir alvöru þess sem við var að eiga. Og þó ætluðu þessir sömu stjórnmálamenn að taka sæti í Öryggisráðinu.

---

Það er þreytandi spuni sem kemur frá sumum lýðskrumurum á Alþingi og annars staðar, sem reyna að spyrða saman ESB og Icesavemálið. Að Icesave sé allt ESB að kenna, plott skrímslis sem vilji taka auðlindir Íslendinga.  Það sjá allir sem vilja að sökudólgarnir í Icesave málinu eru allt saman okkar eigin drullusokkar, með sömu fagurbláu vegabréfin og við hin, en ólíkt fleiri peninga og verri samvisku. ESB ber þar ekki sök.

Eins og Elvira Mendez segir: ef til vill hefði ESB getað hjálpað okkur betur, ef það hefði komið fram við okkur eins og ESB meðlim. En Bretar, Hollendingar og Þjóðverjar komu í veg fyrir að litið væri á okkur sem ESB meðlim, og var það án efa auðveldara vegna þess að Ísland er ekki meðlimur í ESB. 

---

En eitt getum við lært af Icesave: þegar kapítalisminn virðir ekki landamæri, getur almannavaldið ekki gert það heldur. Við þurfum alþjóðlega stjórnsýslu, ef við viljum viðhalda blönduðu markaðshagkerfi.

Íslenska ríkið var orðið peð í taflinu við íslensku bankana. Og er a forteriori peð í taflinu við öll stór fyrirtæki í heiminum. Ef við viljum hafa bönd á kapítalismanum - blandað hagkerfi-  verðum við að hafa stjórnsýslu sem er nógu stór til þess að mæta kapítalinu með jöfnum eða meiri mætti. Hvað það varðar, er aðeins einn vettvangur í boði: ESB. 

 


mbl.is Misbýður umgjörðin um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband