Færsluflokkur: Fjármál

Ólögleg lán

Hér eru nokkrir punktar sem ég vil halda til haga í tenglsum við ólöglega gengistryggð lán.

 

1. Ef dómurinn stendur - sem hann hlýtur að gera - þá er um að ræða svipaða stöðu og fyrir um 30 árum síðan, þar sem óðaverðbólgan í kjölfar olíukreppunnar át upp húsnæðislán fólks. Sumar fjölskyldur gátu nánast endurgreitt óverðtryggðu húsnæðislánin af vasapeningunum á meðan aðrar fjölskyldur börðust áratugum saman við að endurgreiða verðtryggð lán. Munurinn fólst í því hvort viðkomandi hafði keypt heimili sitt nokkrum árum fyrr eða seinna.

 

Ef menn vilja tala um óréttlæti í þessu sambandi, þá er óréttlætið ekki meira eða annars kyns en í fjölda annarra tilfella þar sem menn eignast hluti ódýrt - til dæmis þegar gengi hlutabréfa hækkar, húsnæðisverð hækkar osfrv.

 

2. Sumir halda því fram að hækka þurfi samningsbundna vexti ólöglega gengistryggðu lánanna til þess að tryggja fjármálastöðugleika. Með fjármálastöðugleika er átt við að eigið fé fjármálafyrirtækjanna lækki ekki of mikið.

Ef nauðsynlegt er að vísa til fjármálastöðugleika, þá er það vegna þess að fjármálafyrirækin hafa ekki lagalegan rétt á þessum hærri vöxtum. Annars væri vísað í þann lagalega rétt - fjármálafyrirtæki eru ekki óvön því að beita þess háttar röksemdafærslum.

Þannig að í raun er verið að segja að lántakendur eigi að leggja fjármálafyrirtækjunum til aukið eigið fé. Þegar menn leggja fyrirtækjum til eigið fé, þá eignast þeir venjulega hlut í fyrirtækinu. Sama gildir ef ríkið bjargar fyrirtækjunum með eiginfjárframlagi, þá eignast það fyrirtækin.

Hér er ætlast til þess að lántakendur gefi fyrirtækjunum peninga án þess að fá neitt á móti, svo að ríkið komist hjá því að kaupa eiginfjárhlut í sömu fyrirtækjum. Það er algjörlega fráleitt.

Eigið fé er hlutdeild eigandans í fyrirtækinu. Þegar eigið fé er upp urið, þá hafa fyrrverandi eigendur ekkert tilkall til fyrirtækisins lengur. Hvorki 'viðskiptafræðilega' né siðferðilega.  Ef það þarf að 'bjarga' SP og Lýsingu, þá ætti það að vera  sjálfsagt og augljóst að eigendur fyrirtækjanna eru þar með orðnir fyrrverandi eigendur. 

 

3. Fram hefur komið að þessi lán hafa verið ólögleg í áratug, og að amk. samtök fjármálafyrirtækja vissu þetta fullvel. Þetta vissu menn líka í lögfræðideildum og stjórnum fjármálafyritækjanna, hjá FME, Seðlabankanum osfrv. Það er augljóst.

Það var hins vegar ekkert gert í þessu, og það var ekki af vanrækslu. Það var vegna þess að Íslendingar vildu ekki afskipti hins opinbera af svona hlutum. Hugmyndafræðilegur sigur frjálshyggjunnar á Íslandi var algjör. (Enda á bannið upptök sín hjá ESB og IMF.) 

Markmiðið með því að banna gengistryggingu lána er m.a. að vernda fólk gegn því að taka of mikla áhættu í fjármálum fjölskyldunnar. Þess háttar ríkisafskipti - að vernda fólk fyrir sjálfu sér - voru ekki comme-il-faut á Íslandi þegar þessi lán voru tekin og veitt. Og eru það væntanlega ekki enn.

Margir héldu að þetta væri lang ódýrasta leiðin til þess að fjármagna húsnæðiskaup - menn geta rétt ímyndað sér hvernig viðbrögðin hefðu verið ef lánin hefðu stoppuð.

Það er rétt að hafa þetta í huga í framtíðinni. Til dæmis þegar upp koma hugtök eins og forræðishyggja, "nanny-state" eða "big mother".


Frábært

Það er þarft, hagkvæmt og réttlátt að skattleggja arðgreiðslur einkahlutafélaga á sama hátt og launagreiðslur.

Útfrá hagkvæmnisjónarmiði á ekki að skipta máli hvað tekjur manna eru kallaðar, eða í hvaða reit þær eru skrifaðar í bókhaldinu. Tekjur eru tekjur, og það felst sóun í því að skattareglurnar ýti undir að menn ráði til sín lögfræðinga og endurskoðendur til þess að stofna skúffufyrirtæki, halda fyrir þau bókhald og svo framvegis. Hagkvæmara væri að lögfræðingarnir og endurskoðendurnir ynnu að því að skapa verðmæti.

Eins er það fullkomlega óréttlátt að menn geti lækkað skatthlutföll sín með brellum sem í raun eru ekkert nema hrókeringar á blaði.

Tökum sem dæmi iðnaðarmann sem hefur reksturinn í einkahlutafélagi. Þá er það, í teoríunni, einkahlutafélagið sem vinnur verkin, kaupir til þess vinnuafl iðnaðarmannsins og borgar honum laun fyrir. Launin eru auðvitað lægri en tekjurnar, svo það standa peningar eftir í hlutafélaginu sem iðnaðarmaðurinn fær í arð.

En þessi teoría hefur engin tengsl við raunveruleikann, því einkahlutafélagið er ímynduð persóna sem ekki finnst í raunveruleikanum. Í raun er það iðnaðarmaðurinn sem vinnur verkin og fær borgað fyrir þau. En hann sleppur ódýrar í skatt, af því að hann borgar endurskoðanda fyrir að redda því.

Og að síðustu má benda á, að skattlagning arðgreiðslna milli fyrirtækja dregur úr líkunum á að ein stærsta meinsemd útrásarsamfélagsins fái þrifist: nefnilega einkahlutafélagaflækjurnar. Þessar samstæður skúffufélaga sem höfðu tvö markmið: að koma í veg fyrir að nokkur utanaðkomandi (td. bankar og eftirlitsaðilar) gæti skilið hver ætti hvaða fyrirtæki, og að auðvelda mönnum að koma fé undan skatti. Þeim mun hærra sem arðgreiðslur milli fyrirtækja eru skattlagðar, þeim mun meiri líkur eru á að menn hafi beina eignaraðild að fyrirtækjum sínum. Þetta er hlutur sem að ósekju mætti taka upp, fyrst á annað borð er verið að fikta í skattlagningu einkahlutafélaga. 


mbl.is Hluti arðgreiðslna skattlagður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líklega eðlilegt

Fyrst vil ég gera orð Marðar Árnasonar um bankana að mínum: Ég treysti ekki bönkunum, enda hafa þeir ekki sýnt að þeir eigi annað skilið en fullkomið vantraust.

 

En að því sögðu held ég að hægt sé að túlka fréttirnar af afskriftum á lánum Magnúsar á eðlilegri hátt en margir hafa gert. Skv. reikningsskilareglum ber bönkum að afskrifa _í_bókhaldi_sínu_ skuldir sem ekki er líklegt að fáist innheimtar. Að afskrifa í bókhaldi bankans er ekki það sama og að gefa skuldirnar eftir og breytir ekki þeirri kröfu sem bankinn á.

 

Þetta er ein af fjölmörgum lagagreinum og eðlilegum viðskiptaháttum sem grunur er um að íslensku bankarnir hafi þverbrotið undanfarin ár. T.d. þegar Kaupþing er sagt hafa stofnað einkahlutafélög í eigu bankans til þess eins að selja þeim skuldabréf gjaldþrota fyrirtækja á fullu verði, og komast hjá því að afskrifa þau (þeas færa niður eigið fé bankans). Með því að brjóta þessar reglur er bókhald bankans fegrað og lánveitendur og hlutafjáreigendur hans blekktir.

 

Því er haldið fram í fjölmiðlum að það sem Landsbankinn hafi afskrifað séu lán til eignarhaldsfélags í eigu Magnúsar, sem ekki séu persónulegar ábyrgðir fyrir. Einkahlutafélagið sé gjaldþrota og eignalítið. Ef þessi lýsing er rétt, þá er Landsbankanum skylt að draga þessi lán frá eigin fé bankans í bókhaldinu, því verulegar líkur séu á því að þau muni tapast. Ef eitthvað hefst upp í skuldirnar síðar, þá er það lagt við eigið féð aftur og er talið með í afkomu bankans fyrir það tímabil.

 

Semsagt: ef grunur minn er réttur, þá er hér um að ræða færslu í bókhaldi bankans sem tryggir að bókhaldið endurspegli raunverulega stöðu bankans, en hefur engin áhrif á skuldastöðu Magnúsar Kristinssonar.


mbl.is Engar afskriftir hjá Magnúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðrétting

Samson skuldar því mörgum öðrum en Nýja Kaupþingi stórfé og ekki er ólíklegt að aðrir kröfuhafar verði ósáttir, ef sérstaklega verður séð til þess að Nýja Kaupþing fái miklar endurheimtur en aðrir kröfuhafar ekki. Ekki mun duga til þótt þeir feðgar hafi verið persónulega ábyrgir fyrir láni Nýja Kaupþings, þar sem um persónulegar ábyrgðir, sérstaklega Björgólfs Guðmundssonar, er að ræða á fleiri skuldum í þrotabúi Samsonar.

[...] Björgólfur G. hefur sagt að skuldir sem hann sé í ábyrgðum fyrir séu um 58 milljarðar en upp í þá eigi að vera hægt að fá um 12 milljarða.

 

Þetta er furðuleg frásögn. Ef Björgólfur G. er ekki gjaldþrota (ennþá), þá er honum tæknilega séð í sjálfsvald sett hvaða skuldir hann greiðir fyrst eða mest af.  En ef hann er í vanskilum með skuldir sem hann er í persónulegri ábyrgð fyrir, og rétt er að hann eigi 12 milljarða upp í 58 milljarða skuldir, þá er einmitt lykilatriði fyrir Kaupþing (og aðra kröfuhafa) að koma honum í gjaldþrotameðferð sem fyrst, svo hann komi ekki (fleiri?) eignum undan. Frásögnin hljómar eins og hér sé um eitthvað að tefla, eða að eitthvað sé að vinna við það að gefa persónulegu þrotabúi Björgólfs eftir skuldir.

Kannski er ég að lesa of mikið í frásögnina.

En hugsanlega getur Björgólfur sótt um greiðsluaðlögun eftir nýju reglunum?


mbl.is Dýrt fyrir ríkið að selja banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband