Tengsl AGS og Icesave

Margir fárast yfir því að AGS skuli fresta því að taka afstöðu til lánafyrirgreiðslu til Íslands þangað til Icesave málið er leyst.

"Óskiljanlegt", var það kallað í Silfrinu um daginn. Egill Helgason hefur sagt það hroka hjá AGS, að segja ekki Íslendingum umbúðalaust hvernig er í pottinn búið. Og nú síðast tók Össur Skarphéðinsson Dominique Strauss-Kahn í kennslustund: "Ég sagði honum jafnframt að það væri óviðunandi ef Icesave-málið hefði áhrif á afgreiðslu AGS. Sú deila kæmi sjóðnum ekki við." (Fbl. 29/9/09 bls. 2)

Ég tek það hér með að mér að útskýra hvers vegna AGS mun aldrei afgreiða hingað lán fyrr en Bretar og Hollendingar eru sáttir:

 

Raunveruleg stjórn AGS heitir executive board. Þar sitja 24 executive directors og véla meðal annars um afgreiðslu lána. Ákvarðanir eru öllu jöfnu teknar án atkvæðagreiðslu, þannig að allir þurfa að vera sammála. Í einstaka tilfellum eru ákvarðanir teknar með atkvæðagreiðslu, og þá þarf 85% atkvæða til að taka ákvörðun. (85% mörkin eru ekki ótengd því að Bandaríkin hafa 16% atkvæða.)

Fimm lönd hafa fastafulltrúa. Eitt þeirra er Bretland, fulltrúi þess heitir Alex Gibbs og fer með 5% atkvæða. 19 hópar landa hafa sameiginlega fulltrúa. Fulltrúi eins þessarra hópa er Hollendingurinn Age F.P. Bakker, hann fer með 5% atkvæða.  

Ef það ætti að knýja eitthvað í gegnum AGS án samþykkis Breta og Hollendinga þyrfti semsagt að gera það með atkvæðagreiðslu og svotil öllum greiddum atkvæðum annarra en Breta og Hollendinga.  

 

Það er í fyrsta lagi nánast óhugsandi að fá það í gegn að ákvarða eitt eða neitt í atkvæðagreiðslu gegn vilja eins of fastafulltrúunum. Og í öðru lagi er algjörlega óhugsandi að Íslandi tækist að sannfæra alla aðra en Breta og Hollendinga um að standa með litla Íslandi gegn vilja þessarra stórþjóða. 

Það væri þess vegna algjörlega tilgangslaust að fara að setja Ísland á dagskrá stjórnar AGS áður en Bretar og Hollendingar eru tilbúnir til þess að afgreiða lánið. 

 

Dominique Strauss-Kahn hefur ekkert um þetta að segja.  Ég veit ekkert hvort hann vill afgreiða lán til Íslands gegn vilja Breta og Hollendinga. Það skiptir engu máli. Hann ræður engu um það frekar en aðrir starfsmenn AGS. 

 

Réttlæti, sanngirni, hroki og annað þess líkt koma þessu jafn lítið við. Alþjóðastjórnmál eru ekki sókratísk samræða, þar sem hið rétta og sanna er leitt út. Þau eru hagsmunabarátta, og ríki gera það sem þau komast upp með til að vinna sínum hagsmunum brautargengi. 

 

Semsagt er rétt að halda þessu til haga: það er ekki AGS sem er að fresta lánafyrirgreiðslu til Íslands. Það eru Bretar og Hollendingar.  


Outwitting bureaucracy

Eitt það sem ég hef ekki tekið eftir í þessu myndbandi fyrr en nú, er að þegar speakoverinn segir hvernig Kaupþing eigi að halda áfram að vaxa, þá er fyrsti liðurinn: outwitting bureaucracy. Á góðri íslensku: að plata eftirlitsaðila.

 

We think we can continue to grow the same way we always have: by outwitting bureaucracy, by moving faster, being flexible, building clients businesses and our own, and have fun doing it.

Semsagt, við höldum okkur geta haldið áfram að vaxa með sömu aðferðum og við höfum alltaf beitt: að vera eftirlitsaðilum klókari, að hreyfast hraðar, að vera sveigjanleg...

 


Líklega eðlilegt

Fyrst vil ég gera orð Marðar Árnasonar um bankana að mínum: Ég treysti ekki bönkunum, enda hafa þeir ekki sýnt að þeir eigi annað skilið en fullkomið vantraust.

 

En að því sögðu held ég að hægt sé að túlka fréttirnar af afskriftum á lánum Magnúsar á eðlilegri hátt en margir hafa gert. Skv. reikningsskilareglum ber bönkum að afskrifa _í_bókhaldi_sínu_ skuldir sem ekki er líklegt að fáist innheimtar. Að afskrifa í bókhaldi bankans er ekki það sama og að gefa skuldirnar eftir og breytir ekki þeirri kröfu sem bankinn á.

 

Þetta er ein af fjölmörgum lagagreinum og eðlilegum viðskiptaháttum sem grunur er um að íslensku bankarnir hafi þverbrotið undanfarin ár. T.d. þegar Kaupþing er sagt hafa stofnað einkahlutafélög í eigu bankans til þess eins að selja þeim skuldabréf gjaldþrota fyrirtækja á fullu verði, og komast hjá því að afskrifa þau (þeas færa niður eigið fé bankans). Með því að brjóta þessar reglur er bókhald bankans fegrað og lánveitendur og hlutafjáreigendur hans blekktir.

 

Því er haldið fram í fjölmiðlum að það sem Landsbankinn hafi afskrifað séu lán til eignarhaldsfélags í eigu Magnúsar, sem ekki séu persónulegar ábyrgðir fyrir. Einkahlutafélagið sé gjaldþrota og eignalítið. Ef þessi lýsing er rétt, þá er Landsbankanum skylt að draga þessi lán frá eigin fé bankans í bókhaldinu, því verulegar líkur séu á því að þau muni tapast. Ef eitthvað hefst upp í skuldirnar síðar, þá er það lagt við eigið féð aftur og er talið með í afkomu bankans fyrir það tímabil.

 

Semsagt: ef grunur minn er réttur, þá er hér um að ræða færslu í bókhaldi bankans sem tryggir að bókhaldið endurspegli raunverulega stöðu bankans, en hefur engin áhrif á skuldastöðu Magnúsar Kristinssonar.


mbl.is Engar afskriftir hjá Magnúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skólalóðarstjórnkænska

Björgvin G. Sigurðsson gefur í skyn að ríkisstjórn Íslands hafi ætlað að blekkja þá bresku til að halda að innistæður í Landsbankanum væru tryggðar, en svo ætlað að hlaupast frá ábyrgðinni seinna.

 

Kannski fara menn bráðlega að geta giskað sér til um einhverjar af ástæðum þess að íslenska ríkið fylgdi Landsbankanum á hryðjuverkalistann.


mbl.is Fjórir ráðherrar breyttu bréfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdemestu menn í íslensku efnahagslífi

Skilanefndarmenn eru menn sem yfir nótt urðu meðal valdamestu manna í íslensku efnahagslífi, valdir af handahófi af Jónasi Fr. og hans fólki í Fjármálaeftirlitinu, sem hafði nú aldeilis staðið sig vel fram að því.

Nú á svo að afhenda þessum skilanefndum nýju bankana, Íslandsbanka og Nýja  Kaupþing, gegn vægu endurgjald. Frábært það. 


mbl.is Ráðning hjá Glitni með vitund FME
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúverðugleiki fæst með opnum vinnubrögðum

Hér er um að ræða kvikmyndaupptöku af því þegar lögregluþjónn snýr stúlku niður, sest ofaná hana, heldur báðum höndum um höfuð hennar og ber því í gangstéttina. Heldur svo áfram með ákaflega harkalegu ofbeldi.

Ég á einstaklega erfitt með að sjá fyrir mér hvernig fréttin um þetta mál hefur orðið til. Kannski hefur blaðamaðurinn spurt Jón H. B. Snorrason hvað honum þætti um það sem að ofan er lýst. Jón virðist allavega hafa svarað að það væri ekki svaravert, og blaðamaðurinn þá eftir öllu að dæma hugsað með sér: "Nú, fyrst hann segir að vídeómyndir af lögregluþjóni sem gengur í skrokk á konu séu ekki svaraverðar, hlýtur það að vera rétt. Best að hafa það sem fyrirsögn. "

Er hægt að svara hverju sem er svona?

- Hér eru myndir af þér, Lalli, að brjótast inn í hús. Hvað viltu segja um það?

- Þetta er nú bara ekki svaravert. 

- Nú. Jæja, þá hlýtur þú bara að vera laus allra mála. 

 

Það er ekki nóg með að þetta sé augljóslega svaravert, heldur eru fleiri spurningar sem eru augljóslega svaraverðar:

- Hvernig verður staðið að rannsókn á þessum atburði innan lögreglunnar?

- Hvernig er tryggt að þeir sem að þeirri rannsókn koma séu óháðir lögreglunni?

- Hvaða réttarúrræði hafa þeir sem telja sig harðræði beitta af lögreglunni?

 

Það sem bæði yfirmenn lögreglunnar, og þeir fjölmiðlamenn sem af einhverjum ástæðum telja rétt að kóa með yfirmönnum lögreglunnar, verða að gera sér ljóst, er að trúverðugleiki lögreglunnar bíður alvarlega hnekki við það að starfsmenn hennar náist á mynd við þessar aðstæður. En trúverðugleikinn bíður enn meiri hnekki við að það skuli líta út fyrir að yfirmenn lögreglunnar hylmi yfir eða styðji svona aðfarir.

 

Þetta er sambærilegt við það þegar fréttum er mótmælt, og menn halda því t.d. fram að rangt sé farið með staðreyndir í fréttaflutningi um þá. Við höfum séð mýmörg dæmi um þetta, til dæmis um fréttir Vísis af fjármagnsflutningi útrásarvíkinga til Tortólu í vikunum fyrir hrun. Standard svarið er að viðkomandi fréttastofa eða dagblað "standi við fréttina". Það þýðir ekki neitt, og gerir ekki annað en að grafa undan trausti á því að fréttastofan hafi sitt á hreinu. Annað hvort verða menn að leggja spilin á borðið og útskýra hvað þeir hafi fyrir sér í því sem þeir skrifa, eða að viðurkenna þau mistök sem etv. kunna að hafa orðið og halda aðalatriðunum um leið til haga. Standardsvarið dregur bara úr trúverðugleika allra annarra frétta sem viðkomandi fjölmiðill flytur.

 

Það sama gildir í þessu tilfelli: lögreglan má ekki berja fólk óhóflega, en þó lítur óneitanlega út fyrir að það hafi verið gert hér. Hvað sem mönnum, lögreglu- og blaða-, kann að finnast um Saving Iceland hefur lögreglan skyldu til að beita valdi sínu í hófi og samræmi við tilefnið. Embætti Jóns Snorrasonar felur ekki í sér skyldu til að veita fréttatilkynningum Saving Iceland einkunn, heldur skyldu til þess að taka ásakanir lögregluharðræði alvarlega. Og hér slapp hann allt of auðveldlega frá því, lögreglunni og réttarörygginu til skaða.


mbl.is Ásakanir Saving Iceland ekki svara verðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kröfuhafar

Nú fagna flestir því að íslensku bankarnir komist í eigu erlendra kröfuhafa. Það virðist vera skásta leiðin út úr hruni þeirra.

Maður les nöfn frægra bankastofnana eins og Deutsche Bank og Sumimoto – ja, það liggur við að maður fyllist gleði.

Segir Egill Helgason, og telur tortryggni ríkja gegn útlendingum í viðskiptum. Í gamla daga var látið eins og íslendingar væru svo einstaklega heppnir með kapítalista, við þyrftum að passa okkur alveg sérstaklega að fá ekki hingað of marga útlendinga. Margir urðu fyrir nokkru áfalli þegar kom í ljós að íslendingar hefðu enga sérstaka viðskiptahæfileika, og væru engu betri kapítalistar en aðrir.

Nú er skriðið fyrir nöfnum eins og Deutsche Bank og Sumitomo. Það á sennilega eftir að koma einhverjum á óvart þegar kemur í ljós að erlendir kapítalistar eru nákvæmlega jafn þægilegir í viðskiptum og íslenskir. Það verður nákvæmlega ekkert skemmtilegra eða leinlegra að tala við innheimtulögfræðinga Deutsche Bank en við innheimtulögfræðinga Kaupþings. 

Fyrir utan það, að það eru væntanlega fjárfestingabankar eða sjóðir í eigu Deutsche og Sumitomo sem eiga kröfur á íslensku þrotabúin. Ég hef nákvæmlega enga trú á því að nokkur erlendur viðskiptabanki fari að taka beinan þátt í rekstri íslenskra viðskiptabanka fyrir þá tilviljun að hafa átt í þeim skuldabréf þegar þeir fóru á hausinn. 


Valdajafnvægi

Elvira Mendez segir að sér misbjóði sú málsmeðferð ESB í Icesave málinu, að líta ekki á Ísland sem ESB ríki. Í stað þess að hrúga yfir okkur peningum, eins og Ungverja, hafi ESB neitað að skipta sér af. Þar með hafi Bretar, Hollendingar og Þjóðverjar fengið frjálsar hendur til að berja á okkur. 

Þetta er áhugavert, svo ekki sé meira sagt.

---

Eitt sinn fyrir mörgum árum sá ég viðtal við Baldur Þórhallsson í Sjónvarpinu. Hann var spurður hversu mikil áhrif Ísland myndi hafa í ESB - eða kannski var hann spurður almennt um smáríki. Hann svaraði því til að formlega séð hefðu öll ríki jafnt vægi í ESB. (Allar mikilvægar ákvarðanir eru teknar af ráðherraráðunum. Þar hefur hvert ríki einn ráðherra og neitunarvald.)

Formlega séð. Í raun, sagði Baldur, hafa stóru ríkin meiri völd, því þau eru stór og hafa í krafti þess meiri völd á öllum sviðum alþjóðasamskipta. Ein ástæðan er að þau hafa stærri, öflugri og sérhæfðari stjórnsýslu. Í stórveldi eru herir  manna sérhæfðir í því að fást við málaflokka sem á Íslandi er sinnt í hjáverkum af einum og einum ráðuneytisstarfsmanni.

Íslendingar myndu geta beitt sínu formlega valdi í ráðherraráðinu til þess að hafa mikil áhrif á málaflokka eins og fiskveiðar, sem flestum öðrum ESB ríkjum er nokk sama um. En við þyrftum að lúta því að önnur ríki eru sterkari en við á flestum sviðum. (Á sama hátt og við töpum fyrir Englendingum og Hollendingum í fótbolta, en vinnum þá í handbolta, því við höfum, sem þjóð, sérhæft okkur í honum.)

---

Þetta er ekki bundið við ESB. Þvert á móti: ESB er reglustýrt kerfi, með óháðum dómstól og eigin yfirþjóðlegri stjórnsýslu, og þess vegna vettvangur af því tagi sem gefur smáríkjum best færi til þess að standa uppi í hárinu á stærri ríkjum. Eins og Elvira Mendez gefur til kynna: ef við hefðum verið meðhöndluð sem ESB ríki, hefðu málalyktir líklega verið öðruvísi. 

Það mætti frekar segja, að þetta valdaójafnvægi sé grundvallarregla í alþjóðasamskiptum, sem við Íslendingar höfum fengið að finna illilega fyrir í tengslum við bankahrunið. Og gildi í mun frekari mæli utan ESB en innan þess.

Í tengslum við bankahrunið, tilraunirnar til þess að 'redda' öllu án aðkomu AGS, Icesave málið og fleira, var oft talað um vinaþjóðir Íslands. Hvernig gátu Bretar beitt okkur þeim hrottaskap sem þeir gerðu, áttu þeir ekki að heita að vera vinir okkar? Hvað með 'vinaþjóðir' okkar á Norðurlöndum - af hverju hjálpuðu þær okkur ekki? Ef marka má frásagnirnar í Hruninu voru stjórnvöld steinhissa á því hversu lítil vinarþel nágrannaríkja okkar var í garð Íslands þegar á reyndi.

Þessi umræða og þessi hugtakanotkun var innihaldsrýr. Því í alþjóðastjórnmálum er vinátta ákaflega lítils virði. Í alþjóðastjórnmálum er það fyrst og fremst réttur hins sterka sem ræður. Lögfræði og sanngirnisrök mega sín lítils. Eins og Þúsidides lagði Aþenumönnum í munn fyrir nokkur þúsund árum síðan, í samtali við íbúa litla eyríkisins Melos: "réttur kemur aðeins til álita í samskiptum jafn máttugra, hinir sterku gera það sem þeir geta gert og hinir veiku þola það sem þeir þurfa að þola."

Þetta fundum við þegar hryðjuverkalögunum var beitt gegn okkur. Þegar leitað var lána hjá 'vinaþjóðum' okkar. Þegar Icesave samningar voru orðnir að skilyrði fyrir fyrirgreiðslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Þegar Árni M. Mathiesen var plataður af Hollendingum til þess að lofa að greiða ofurvexti af Icesave skuldbindingunni.Og nú er því haldið fram að Svavar Gestsson hafi ekki verið jafnoki þeirra sem hann samdi við. Það hefði ekki átt að koma neinum á óvart, með fullri virðingu fyrir Svavari og Indriða. 

Þetta hafa margar þjóðir fundið á undan okkur. Melosarbúar reyndu, í frásögn Þúsidídesar, að bjóða Aþeningum birginn, með þá von í huga að öðrum þjóðum myndi misbjóða það óréttlæti sem Aþenumenn beittu þá, og koma Melosarbúum til hjálpar. Viðureigninni lauk öðruvísi en Melosarbúar höfðu vonað. Bretar og Hollendingar eiga hvorir tveggja langa röð fórnarlamba að baki. Svo mætti lengi telja. Hver er sjálfum sér næstur í alþjóðastjórnmálum.

Það merkilegasta er kannski að svo virðist sem íslenskir stjórnmálamenn hafi ekki skilið þetta. Kannski gerðu þeir það ekki: frásagnirnar í Hruninu líkjast óneitanlega frásögnum af fumandi og óöruggu fólki, sem ekki gerði sér grein fyrir alvöru þess sem við var að eiga. Og þó ætluðu þessir sömu stjórnmálamenn að taka sæti í Öryggisráðinu.

---

Það er þreytandi spuni sem kemur frá sumum lýðskrumurum á Alþingi og annars staðar, sem reyna að spyrða saman ESB og Icesavemálið. Að Icesave sé allt ESB að kenna, plott skrímslis sem vilji taka auðlindir Íslendinga.  Það sjá allir sem vilja að sökudólgarnir í Icesave málinu eru allt saman okkar eigin drullusokkar, með sömu fagurbláu vegabréfin og við hin, en ólíkt fleiri peninga og verri samvisku. ESB ber þar ekki sök.

Eins og Elvira Mendez segir: ef til vill hefði ESB getað hjálpað okkur betur, ef það hefði komið fram við okkur eins og ESB meðlim. En Bretar, Hollendingar og Þjóðverjar komu í veg fyrir að litið væri á okkur sem ESB meðlim, og var það án efa auðveldara vegna þess að Ísland er ekki meðlimur í ESB. 

---

En eitt getum við lært af Icesave: þegar kapítalisminn virðir ekki landamæri, getur almannavaldið ekki gert það heldur. Við þurfum alþjóðlega stjórnsýslu, ef við viljum viðhalda blönduðu markaðshagkerfi.

Íslenska ríkið var orðið peð í taflinu við íslensku bankana. Og er a forteriori peð í taflinu við öll stór fyrirtæki í heiminum. Ef við viljum hafa bönd á kapítalismanum - blandað hagkerfi-  verðum við að hafa stjórnsýslu sem er nógu stór til þess að mæta kapítalinu með jöfnum eða meiri mætti. Hvað það varðar, er aðeins einn vettvangur í boði: ESB. 

 


mbl.is Misbýður umgjörðin um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðrétting

Samson skuldar því mörgum öðrum en Nýja Kaupþingi stórfé og ekki er ólíklegt að aðrir kröfuhafar verði ósáttir, ef sérstaklega verður séð til þess að Nýja Kaupþing fái miklar endurheimtur en aðrir kröfuhafar ekki. Ekki mun duga til þótt þeir feðgar hafi verið persónulega ábyrgir fyrir láni Nýja Kaupþings, þar sem um persónulegar ábyrgðir, sérstaklega Björgólfs Guðmundssonar, er að ræða á fleiri skuldum í þrotabúi Samsonar.

[...] Björgólfur G. hefur sagt að skuldir sem hann sé í ábyrgðum fyrir séu um 58 milljarðar en upp í þá eigi að vera hægt að fá um 12 milljarða.

 

Þetta er furðuleg frásögn. Ef Björgólfur G. er ekki gjaldþrota (ennþá), þá er honum tæknilega séð í sjálfsvald sett hvaða skuldir hann greiðir fyrst eða mest af.  En ef hann er í vanskilum með skuldir sem hann er í persónulegri ábyrgð fyrir, og rétt er að hann eigi 12 milljarða upp í 58 milljarða skuldir, þá er einmitt lykilatriði fyrir Kaupþing (og aðra kröfuhafa) að koma honum í gjaldþrotameðferð sem fyrst, svo hann komi ekki (fleiri?) eignum undan. Frásögnin hljómar eins og hér sé um eitthvað að tefla, eða að eitthvað sé að vinna við það að gefa persónulegu þrotabúi Björgólfs eftir skuldir.

Kannski er ég að lesa of mikið í frásögnina.

En hugsanlega getur Björgólfur sótt um greiðsluaðlögun eftir nýju reglunum?


mbl.is Dýrt fyrir ríkið að selja banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónuleg ábyrgð

Það kom mér nokkuð á óvart að Björgólfarnir tveir skuli hafa verið sagðir í persónulegum ábyrgðum fyrir þessu broti af skuldum Samson. Það þýðir að ef eðlilega er haldið á málum, þá eru allar óveðsettar eignir þeirra nú og í framtíðinni til tryggingar skuldinni. Og að hún hlýtur að fást greidd að fullu (með kostnaði og vöxtum) nema þeir fari báðir í persónulegt gjaldþrot og eignist aldrei neitt framar. Ég hélt að skuldir þeirra myndu hverfa með kennitölunum og skúffufyrirtækjunum. Það að þeir, sem tákngerfingar sjálftökusamfélagsins, hafi skrifað undir persónulegar ábyrgðir fyrir einhverju vekur vonir um að aðrir hafi hugsanlega verið látnir gera það líka. Að ekki hafi allt verið eins rotið og maður hélt.

 

Ég gæti vel ímyndað mér að Kaupþing muni í framtíðinni neita að upplýsa um það hvort þeim hafi verið gefnar upp skuldir. En enginn sómasamur fjölmiðlamaður mun með góðri samvisku geta haft við neinn þessarra manna fleiri viðtöl eða af þeim frásagnir án þess að biðja fyrst (og síendurtekið) um að sjá kvittun fyrir þessum 6 milljörðum. Við getum ekki, sem samfélag með sjálfsvirðingu, samþykkt að deila samfélagi með þessum mönnum ef þeim verða gefnar eftir skuldir. Í álag á allt það fé sem þeir hafa flett okkur. Ekki að það séu 6 milljarðar, og svo sé allt í lagi. En eftir að fréttir bárust af því að þeim hafi dottið í hug að biðja um niðurfellingu skulda, þá eru þessir 6 milljarðar aðgöngumiðinn að anddyri samfélagsins.  

 

Eitt er, að þeir skuli með velþóknun stjórnvalda og eftirlitsaðila, ef ekki stórs hluta almennings, hafa auðgast stórkostlega við það að féfletta ríkissjóð og stefna almenningi í yfirgengilegar skuldir. Það var siðlaust, og vonandi lögbrot. En að halda áfram, hálfu ári eftir hrun, með fulltingi þeirra sem eiga að hafa verið settir til að moka flórinn eftir Björgólfana og félaga þeirra, það væri einhvern veginn meira. Jafnvel þó þessi upphæð sé smápeningar miðað við hitt sem þeir skulda okkur. 


mbl.is Bankastjóra Kaupþings hótað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband