Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Ekki verður bókvitið í askana látið
7.12.2009 | 11:52
Maður nokkur gefur í skyn, að gagnrýni á skort fyrrverandi seðlabankastjóra á menntun við hæfi hafi einkum stafað af því að sumir þeirra sem gagnrýndu hafi sjálfir verið hagfræðingar.
Það er fyndið til þess að hugsa að maður þessi hefur sjálfur ritað kennslubækur í hagfræði, án þess þó að hafa sjálfur þegið kennslu í hagfræði. Og hlaut stöðu lektors við háskólann þó hann hafi ekki verið metinn hæfur af þeirri nefnd, sem skipuð var til matsins. Enda hefur viðkomandi menntun í sagnfræði og heimspeki, en gegnir stöðu prófessors í stjórnmálafræði.
Maður gæti freistast til þess að dylgja um að skoðanir Hannesar Hólmsteins á gildi formlegrar menntunar ættu rætur í aðstæðum hans sjálfs.
En það væri að leggjast lágt. Jafn lágt og þetta.
80 ára þagnarbindindi um launin mín
3.12.2009 | 13:25
Egill Helgason birtir bréf manns um lögin varðandi gögn sannleiksnefndarinnar. Bréfið virðist byggja á þeim skilningi sem kemur fram í ótrúlega slakri frétt Stöðvar tvö um lagafrumvarpið.
Þessi lög fjalla um tvennt:
Í fyrsta lagi að rannsóknanefndin megi birta hvaða upplýsingar sem er í skýrslunni, þó það brjóti trúnað, bankaleynd og persónuverndarákvæði, og að það sé ekki hægt að kæra starfsfólk nefndarinnar fyrir þetta.
Í öðru lagi, að þeir gríðarlegu gagnagrunnar sem rannsóknarnefndin hefur verði gerðir aðgengilegir fyrir rannsóknir annarra aðila á hruninu. Þjóðskjalasafn Íslands geymi þessa gagnagrunna, og að hægt verði að fá aðgengi að þeim til rannsókna á hruninu.
Í þessum gagnagrunnum eru svo til allar fjárhagsupplýsingar um svo til alla Íslendinga, ekki bara þá sem komu að hruninu. Væntanlega stendur þarna til dæmis hvort og hversu mikið Egill Helgason hefur millifært á konuna sína á árinu 2007 og hvað Höskuldur Kári Schram hefur í laun. Auðvitað verður svona gagnagrunnur að vera þannig að ekki sé hægt að fletta upp á einstökum aðilum. Það er bara lógík fyrir búrhænur.
Þetta eru ekki lög um að ritskoða skýrsluna.
Þetta eru ekki lög um að skýrslan verði ekki birt.
Það stendur ekki orð í þessum lögum um niðurstöður nefndarinnar, annað en að ekki sé hægt að kæra starfsfólkið fyrir að birta þær.
Þetta er semsagt aðgerð til þess að tryggja að starfsfólk nefndarinnar geti birt niðurstöðurnar án þess að óttast hefndaraðgerðir, og til þess að auka aðgengi fræðimanna að því að gera rannsóknir á gagnagrunninum.
Samt trompast hópur manna, með Egil Helgason í fararbroddi, og þeir verstu tala eins og það sé verið að fremja glæpi gegn mannkyninu.
Og svo er talað um "spunamaskínu Samfylkingarinnar". Þetta mál er ætti að vera hreinræktaður winner fyrir hvaða almannatengil sem er. Það er þessum svokölluðu "spunameisturum" til ævarandi skammar að svona rugl umræða geti hafa komið upp um þetta mál.
Hvernig getur það verið að það fyrsta sem almenningur heyrir af þessu máli sé frétt á Stöð 2, þar sem kemur ekki einusinni fram til hvers þetta sé gert eða hvaða upplýsingar séu í gagnagrunninum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Myndlygar
9.10.2009 | 12:42
Egill Helgason bendir á að á þeim myndum sem fylgja þessarri 'fréttaskýringu' sé, auk bankamanna og embættismanna, að finna myndir af tveim ráðherrum: Björgvini G. Sigurðssyni og Árna Mathiesen. En í fundargerð stjórnar Glitnis frá því að ákvörðunin sem um er fjallað var tekin kemur fram að hún hafi verið 'í samráði við' Geir Haarde og Árna Mathiesen. Hvergi er minnst á Björgvin G.
Nú gæti einhver sagt að Björgvin hafi verið ráðherra bankamála. Og það er rétt, þó margt bendi til þess að hann hafi haft minni aðkomu að málefnum bankanna en eðlilegt hefði verið - Sjálfstæðisflokkurinn og Davíð Oddsson hafi stýrt þar eftir hentugleikum. En auðvitað er Björgvin einn þeirra sem bera ábyrgð.
Aðrir gætu sagt að það sé ólíklega tilviljun að þarna sé ráðherra samfylkingarinnar spyrtur við mál sem fyrst og fremst tengist Sjálfstæðisflokknum - í gegnum forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann sem voru beinir þáttakendur í gjörningnum, og í gegnum þann Illuga Gunnarsson, nefndarmann í Efnahags- og skattanefnd og núverandi þingflokksformann, sem sat í stjórn sjóðsins sem verið var að redda.
Þann Illuga Gunnarsson sem í fimm ár var aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar, núverandi ritstjóra Morgunblaðsins.
Hvað sem því líður, þá er ljóst af fundargerðum stjórnar Glitnis að það var Geir Hilmar Haarde sem beitti sér persónulega til þess að fá Glitni til þess að kaupa bréf FL og Stoða úr peningamarkaðssjóði Illuga. En þó er engin mynd af honum með frétt Morgunblaðsins. Hans er heldur ekki getið á lista hinna ábyrgu.
Ætli það sé bláa höndin sem þarna fer með penna?
Landsbankinn: Almenningur borgar vegna ákvarðana embættismanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Valdemestu menn í íslensku efnahagslífi
9.8.2009 | 17:25
Skilanefndarmenn eru menn sem yfir nótt urðu meðal valdamestu manna í íslensku efnahagslífi, valdir af handahófi af Jónasi Fr. og hans fólki í Fjármálaeftirlitinu, sem hafði nú aldeilis staðið sig vel fram að því.
Nú á svo að afhenda þessum skilanefndum nýju bankana, Íslandsbanka og Nýja Kaupþing, gegn vægu endurgjald. Frábært það.
Ráðning hjá Glitni með vitund FME | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.11.2009 kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Persónuleg ábyrgð
9.7.2009 | 08:45
Það kom mér nokkuð á óvart að Björgólfarnir tveir skuli hafa verið sagðir í persónulegum ábyrgðum fyrir þessu broti af skuldum Samson. Það þýðir að ef eðlilega er haldið á málum, þá eru allar óveðsettar eignir þeirra nú og í framtíðinni til tryggingar skuldinni. Og að hún hlýtur að fást greidd að fullu (með kostnaði og vöxtum) nema þeir fari báðir í persónulegt gjaldþrot og eignist aldrei neitt framar. Ég hélt að skuldir þeirra myndu hverfa með kennitölunum og skúffufyrirtækjunum. Það að þeir, sem tákngerfingar sjálftökusamfélagsins, hafi skrifað undir persónulegar ábyrgðir fyrir einhverju vekur vonir um að aðrir hafi hugsanlega verið látnir gera það líka. Að ekki hafi allt verið eins rotið og maður hélt.
Ég gæti vel ímyndað mér að Kaupþing muni í framtíðinni neita að upplýsa um það hvort þeim hafi verið gefnar upp skuldir. En enginn sómasamur fjölmiðlamaður mun með góðri samvisku geta haft við neinn þessarra manna fleiri viðtöl eða af þeim frásagnir án þess að biðja fyrst (og síendurtekið) um að sjá kvittun fyrir þessum 6 milljörðum. Við getum ekki, sem samfélag með sjálfsvirðingu, samþykkt að deila samfélagi með þessum mönnum ef þeim verða gefnar eftir skuldir. Í álag á allt það fé sem þeir hafa flett okkur. Ekki að það séu 6 milljarðar, og svo sé allt í lagi. En eftir að fréttir bárust af því að þeim hafi dottið í hug að biðja um niðurfellingu skulda, þá eru þessir 6 milljarðar aðgöngumiðinn að anddyri samfélagsins.
Eitt er, að þeir skuli með velþóknun stjórnvalda og eftirlitsaðila, ef ekki stórs hluta almennings, hafa auðgast stórkostlega við það að féfletta ríkissjóð og stefna almenningi í yfirgengilegar skuldir. Það var siðlaust, og vonandi lögbrot. En að halda áfram, hálfu ári eftir hrun, með fulltingi þeirra sem eiga að hafa verið settir til að moka flórinn eftir Björgólfana og félaga þeirra, það væri einhvern veginn meira. Jafnvel þó þessi upphæð sé smápeningar miðað við hitt sem þeir skulda okkur.
Bankastjóra Kaupþings hótað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vel orðað
20.6.2009 | 12:12
Þór Saari talar á alþingi um
að velta skuldum einkaaðila, svokallaðra útrásarvíkinga, yfir á almenning í landinu sem stofnaði ekki til þeirra skulda. Það er algjörlega óásættanlegt. Það er algjörlega óréttlátt og algjörlega siðlaust. Mér býður einfaldlega við þeirri hugsun að menn vogi sér að taka slíkar ákvarðanir og velta þessu yfir á almenning í landinu, á börnin okkar og barnabörnin.
Vandinn er þó að það virðist vera sem þessi ákvörðun hafi verið tekin fyrir nokkrum árum síðan. En ég er allavega fullkomlega sammála lýsingunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tuðað fyrir eftirmælunum
20.6.2009 | 12:05
Mér virðist þessi ræða Geirs hafa það markmið helst, að kenna ESB um hrunið á Íslandi. Regluverk EES meingallað og svona. Það gleymist í þeirri frásögn, að fjármálaeftirlitið á Íslandi hefði hæglega getað þvingað Landsbankann til þess að hafa Icesave í dótturfyrirtækjum. Einfalt hefði verið að gera eins og breska fjármálaeftirlitið gerði við breskt dótturfyrirtæki Kaupþings stuttu fyrir hrun: auka bindiskylduna upp í 90% eða láta binda öll innlán á reikningi í seðlabankanum. Ef það hefði verið gert væri ekkert Icesave að fara að ríða Íslandi eins og mara næstu áratugi.
Eftirmæli Geirs eru og munu alltaf verða, að hann var fjármálaráðherra og forstætisráðherra í þeim ríkisstjórnum sem lögðu grunninn að stærsta hruni, dýpstu kreppu og mesta skuldafeni sem Ísland hefur orðið vitni að. Skólarnir, dagvistunin, heilbrigðisþjónustan, elliheimilin og allir innviðir samfélagsins munu fúna, og líf fjölmargra íslendinga munu verða sífellt stress og peningaáhyggjur, meðal annars vegna þess að Geir Hilmar Haarde stóð sig eins illa í sínu starfi og hugsanlegt var, og brást því trausti sem honum var sýnt á svo yfirþyrmandi hátt. Geir: hættu að tuða yfir ESB, og biðstu afsökunar.
Ein ástæða þess að bankar hafa erlenda starfsemi í útibúum í stað dótturfyrirtækja er að þá eru færri og einfaldari reglur að fylgja, og það er miklu auðveldara að eiga við eitt fjármálaeftirlit en mörg. Kerfið gerir bönkum kleift að "shoppa" eftir auðsveipasta fjármálaeftirlitinu, og láta það hafa með sér eftirlit. Það bendir allt til þess að Landsbankinn hafi ekki þurft að leita neitt sérstaklega lengi, og það var alveg ábyggilega engin tilviljun.
Nýjar ESB-reglur um bankakerfið ganga ekki nógu langt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Undanþágusamfélagið
20.6.2009 | 11:46
Svar til Viðars á this.is/nei um þetta efni:
Breska og Hollenska ríkið eru búin að ábyrgjast of fjár úr þessu bankaráni. Þeim ber engin skylda til þess, því síður til þess að ábyrgjast meira, hvorki siðferðileg eða lagaleg. Það voru hvorki Bretar né Hollendingar sem leyfðu þennan þjófnað, fögnuðu honum, mærðu og ábyrgðust. Það voru lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Íslandi, með velþóknun og velvilja alls almennings.
Íslendingar líta á sig sem þjóð, fullvalda ríki, jafningja annarra ríkja, sem vill sitja með við borðið í alþjóðasamfélaginu. Allavega þegar á að panta og borða, en þegar kemur að því að greiða reikninginn þá eiga allir hinir að skipta honum með sér. Eitt ríkasta land í heimi - við erum ennþá í þeim hópi - heimtar sífelldar undanþágur og ölmusur: hvort sem það heitir Kyotobókun eða Icesave, alltaf þykjumst við vera svo spes, hafa svo mikla sérstöðu, eins og okkar kolefni mengi minna, og okkar ábyrgðir og skuldbindingar þýði ekki neitt.
Útrásarvíkingarnir fóru ránsferð um Bretland og Norður Evrópu á okkar vegum, með okkar leyfi og velþóknun. Það getur verið að við tveir höfum ekki haft á þeim sérstaka velþóknun, en þannig er fulltrúalýðræðið: fulltrúarnir skuldbinda alla hina. Það dugar ekki að kenna öllum hinum um: regluverk ESB var gallað, hryðjuverkalögin skemmdu svo fyrir okkur.
Nú virðumst við þurfa að sætta okkur við að þetta gangi ekki lengur.
Spurt er um afleiðingar þess að borga ekki. Ég þekki þær ekki, það þekkir þær væntanlega enginn. En af hverju var hryðjuverkalögunum beitt? Breska ríkisstjórnin hefur þessa skýringu, í þýðingu moggans:
Í tengslum við útibú Landsbankans í Bretlandi, þrátt fyrir yfirlýsingar íslensku ríkisstjórnarinnar um að hún myndi uppfylla skyldur sínar (samkvæmt innistæðutryggingarkerfi framkvæmdanefndar Evrópusambandsins) gagnvart innistæðueigendum í því útibúi, þá tókst bresku ríkisstjórninni ekki að fá skýr svör um hvernig Ísland ætlaði að gera það framkvæmanlegt Bresk stjórnvöld gripu til þessara aðgerða í ljósi þessara áhyggna,
Bresku ríkisstjórninni tókst ekki að fá skýr svör um það hvernig sú íslenska hyggðist borga Icesave-skuldirnar, og færði þá Ísland allt á lista yfir hryðjuverkamenn. Það hefur væntanlega enginn séð það fyrir að þessi skortur á skýrum svörum myndi hafa þær afleiðingar, svo það er víst borin von að hægt sé að geta sér til um hvaða afleiðingar skýrt svar um að við neitum að borga myndi hafa.
Bresk stjórnvöld verja hryðjuverkalögin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)