Færsluflokkur: Löggæsla

Trúverðugleiki fæst með opnum vinnubrögðum

Hér er um að ræða kvikmyndaupptöku af því þegar lögregluþjónn snýr stúlku niður, sest ofaná hana, heldur báðum höndum um höfuð hennar og ber því í gangstéttina. Heldur svo áfram með ákaflega harkalegu ofbeldi.

Ég á einstaklega erfitt með að sjá fyrir mér hvernig fréttin um þetta mál hefur orðið til. Kannski hefur blaðamaðurinn spurt Jón H. B. Snorrason hvað honum þætti um það sem að ofan er lýst. Jón virðist allavega hafa svarað að það væri ekki svaravert, og blaðamaðurinn þá eftir öllu að dæma hugsað með sér: "Nú, fyrst hann segir að vídeómyndir af lögregluþjóni sem gengur í skrokk á konu séu ekki svaraverðar, hlýtur það að vera rétt. Best að hafa það sem fyrirsögn. "

Er hægt að svara hverju sem er svona?

- Hér eru myndir af þér, Lalli, að brjótast inn í hús. Hvað viltu segja um það?

- Þetta er nú bara ekki svaravert. 

- Nú. Jæja, þá hlýtur þú bara að vera laus allra mála. 

 

Það er ekki nóg með að þetta sé augljóslega svaravert, heldur eru fleiri spurningar sem eru augljóslega svaraverðar:

- Hvernig verður staðið að rannsókn á þessum atburði innan lögreglunnar?

- Hvernig er tryggt að þeir sem að þeirri rannsókn koma séu óháðir lögreglunni?

- Hvaða réttarúrræði hafa þeir sem telja sig harðræði beitta af lögreglunni?

 

Það sem bæði yfirmenn lögreglunnar, og þeir fjölmiðlamenn sem af einhverjum ástæðum telja rétt að kóa með yfirmönnum lögreglunnar, verða að gera sér ljóst, er að trúverðugleiki lögreglunnar bíður alvarlega hnekki við það að starfsmenn hennar náist á mynd við þessar aðstæður. En trúverðugleikinn bíður enn meiri hnekki við að það skuli líta út fyrir að yfirmenn lögreglunnar hylmi yfir eða styðji svona aðfarir.

 

Þetta er sambærilegt við það þegar fréttum er mótmælt, og menn halda því t.d. fram að rangt sé farið með staðreyndir í fréttaflutningi um þá. Við höfum séð mýmörg dæmi um þetta, til dæmis um fréttir Vísis af fjármagnsflutningi útrásarvíkinga til Tortólu í vikunum fyrir hrun. Standard svarið er að viðkomandi fréttastofa eða dagblað "standi við fréttina". Það þýðir ekki neitt, og gerir ekki annað en að grafa undan trausti á því að fréttastofan hafi sitt á hreinu. Annað hvort verða menn að leggja spilin á borðið og útskýra hvað þeir hafi fyrir sér í því sem þeir skrifa, eða að viðurkenna þau mistök sem etv. kunna að hafa orðið og halda aðalatriðunum um leið til haga. Standardsvarið dregur bara úr trúverðugleika allra annarra frétta sem viðkomandi fjölmiðill flytur.

 

Það sama gildir í þessu tilfelli: lögreglan má ekki berja fólk óhóflega, en þó lítur óneitanlega út fyrir að það hafi verið gert hér. Hvað sem mönnum, lögreglu- og blaða-, kann að finnast um Saving Iceland hefur lögreglan skyldu til að beita valdi sínu í hófi og samræmi við tilefnið. Embætti Jóns Snorrasonar felur ekki í sér skyldu til að veita fréttatilkynningum Saving Iceland einkunn, heldur skyldu til þess að taka ásakanir lögregluharðræði alvarlega. Og hér slapp hann allt of auðveldlega frá því, lögreglunni og réttarörygginu til skaða.


mbl.is Ásakanir Saving Iceland ekki svara verðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband