Ólögleg lán

Hér eru nokkrir punktar sem ég vil halda til haga í tenglsum við ólöglega gengistryggð lán.

 

1. Ef dómurinn stendur - sem hann hlýtur að gera - þá er um að ræða svipaða stöðu og fyrir um 30 árum síðan, þar sem óðaverðbólgan í kjölfar olíukreppunnar át upp húsnæðislán fólks. Sumar fjölskyldur gátu nánast endurgreitt óverðtryggðu húsnæðislánin af vasapeningunum á meðan aðrar fjölskyldur börðust áratugum saman við að endurgreiða verðtryggð lán. Munurinn fólst í því hvort viðkomandi hafði keypt heimili sitt nokkrum árum fyrr eða seinna.

 

Ef menn vilja tala um óréttlæti í þessu sambandi, þá er óréttlætið ekki meira eða annars kyns en í fjölda annarra tilfella þar sem menn eignast hluti ódýrt - til dæmis þegar gengi hlutabréfa hækkar, húsnæðisverð hækkar osfrv.

 

2. Sumir halda því fram að hækka þurfi samningsbundna vexti ólöglega gengistryggðu lánanna til þess að tryggja fjármálastöðugleika. Með fjármálastöðugleika er átt við að eigið fé fjármálafyrirtækjanna lækki ekki of mikið.

Ef nauðsynlegt er að vísa til fjármálastöðugleika, þá er það vegna þess að fjármálafyrirækin hafa ekki lagalegan rétt á þessum hærri vöxtum. Annars væri vísað í þann lagalega rétt - fjármálafyrirtæki eru ekki óvön því að beita þess háttar röksemdafærslum.

Þannig að í raun er verið að segja að lántakendur eigi að leggja fjármálafyrirtækjunum til aukið eigið fé. Þegar menn leggja fyrirtækjum til eigið fé, þá eignast þeir venjulega hlut í fyrirtækinu. Sama gildir ef ríkið bjargar fyrirtækjunum með eiginfjárframlagi, þá eignast það fyrirtækin.

Hér er ætlast til þess að lántakendur gefi fyrirtækjunum peninga án þess að fá neitt á móti, svo að ríkið komist hjá því að kaupa eiginfjárhlut í sömu fyrirtækjum. Það er algjörlega fráleitt.

Eigið fé er hlutdeild eigandans í fyrirtækinu. Þegar eigið fé er upp urið, þá hafa fyrrverandi eigendur ekkert tilkall til fyrirtækisins lengur. Hvorki 'viðskiptafræðilega' né siðferðilega.  Ef það þarf að 'bjarga' SP og Lýsingu, þá ætti það að vera  sjálfsagt og augljóst að eigendur fyrirtækjanna eru þar með orðnir fyrrverandi eigendur. 

 

3. Fram hefur komið að þessi lán hafa verið ólögleg í áratug, og að amk. samtök fjármálafyrirtækja vissu þetta fullvel. Þetta vissu menn líka í lögfræðideildum og stjórnum fjármálafyritækjanna, hjá FME, Seðlabankanum osfrv. Það er augljóst.

Það var hins vegar ekkert gert í þessu, og það var ekki af vanrækslu. Það var vegna þess að Íslendingar vildu ekki afskipti hins opinbera af svona hlutum. Hugmyndafræðilegur sigur frjálshyggjunnar á Íslandi var algjör. (Enda á bannið upptök sín hjá ESB og IMF.) 

Markmiðið með því að banna gengistryggingu lána er m.a. að vernda fólk gegn því að taka of mikla áhættu í fjármálum fjölskyldunnar. Þess háttar ríkisafskipti - að vernda fólk fyrir sjálfu sér - voru ekki comme-il-faut á Íslandi þegar þessi lán voru tekin og veitt. Og eru það væntanlega ekki enn.

Margir héldu að þetta væri lang ódýrasta leiðin til þess að fjármagna húsnæðiskaup - menn geta rétt ímyndað sér hvernig viðbrögðin hefðu verið ef lánin hefðu stoppuð.

Það er rétt að hafa þetta í huga í framtíðinni. Til dæmis þegar upp koma hugtök eins og forræðishyggja, "nanny-state" eða "big mother".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband