Týndi áratugurinn
9.12.2009 | 08:44
Taflan hér til hliðar sýnir framleiðni pr. vinnustund í OECD. Þetta kemur úr danskri skýrslu (CEPOS, tilvitnun felur ekki í sér meðmæli að öðru leyti).
Tölurnar sýna kaupmátt þjóðartekna deilt með þeim fjölda vinnutíma sem þurfti til að 'skaffa' þjóðartekjurnar. Þetta er besti mælikvarðinn á efnahagslega velferð, og gefur í raun til kynna hversu hátt tímakaup þjóðarbúið greiðir borgurunum, þegar allt er tekið með í reikninginn.
Þar sem þetta kemur úr danskri skýrslu, þá eru tölurnar 'staðlaðar' með því að nota dönsku tölurnar sem grunn. (Þeas að framleiðnin er gefin upp sem hlutfall af framleiðni í Danmörku.)
Taflan talar um margt sínu máli. Árið 1998 voru Íslendingar númer 19 af 29 í OECD. Við höfðum svipaðar tekjur af hverri vinnustund og Spánverjar.
Á áratugnum fram til 2008 - bóluárunum, íslensku gullkortaöldinni, öld frjálshyggjunnar - dróst Ísland afturúr hinum OECD löndunum. Reyndar lækkuðum við bara um eitt sæti, en það helgast af því hversu fátæk löndin sem eru neðar en við voru til að byrja með.
Löndin sem hafa minni framleiðni en við eru lönd eins og Grikkland, Slóvakía, Portugal og Ungverjaland.
Hins vegar höfðu Spánverjar 18% meira upp úr hverri vinnustund en Íslendingar árið 2008, en höfðu nánast það sama árið 1998.
Í samanburði við norður evrópsk lönd kemur áratugur frjálshyggjunnar enn ver út. Þjóðverjar höfðu 23% meira upp úr hverri vinnustund 1998, en 40% meira árið 2008. Svíar, sem við jú stöndum framar að flestu leyti, þénuðu 11% meira en við árið 1998 en 27% meira árið 2008.
Auðvitað hefur kreppan einhver áhrif á þetta, en bankahrunið varð þó ekki fyrr en í lok árs 2008, eftir að megnið af þjóðarframleiðslu þess árs var framleidd. Þannig koma áhrif kreppunnar ekki sterkt fram fyrr en við höfum sambærilegar tölur fyrir 2009. Þar að auki verður að hafa í huga að það er líka kreppa í hinum löndunum. Tölurnar eru gerðar upp út frá kaupmætti (PPP), svo ekki er hægt að kenna gengissveiflunum um.
Þannig að niðurstaðan er sú, að þetta var afrakstur bólunnar áður en áhrif kreppunnar voru komin fram. Við drógumst fyrst afturúr, svo fórum við á hausinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.