Stéttastríðið á Íslandi
2.7.2010 | 10:00
Síðast þegar við hjónin vorum á Íslandi veltum við því fyrir okkur hvers vegna við sæjum nánast bara lúxusjeppa og gamla litla bíla á götunum. Enga nýlega, meðalstóra fjölskyldufólksbíla.
Kannski er skýringin á grafinu hér til vinstri. Það kemur úr uppkasti að ritgerð eftir Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson.
Þar kemur fram að á tímabilinu frá 1992 til 2007 stækkaði sneið ríkasta 1% af þjóðarkökunni úr ca. 3% í ca. 20%.
Með öðrum orðum hafði ríkasta 1% þjóðarinnar þrefaldar meðaltekjur svotil allan tíunda áratuginnm, en tuttugufaldar meðaltekjur árið 2007.
Myndin sýnir líka að það var fyrst og fremst ríkasta 1% sem upplifði þessa rosalegu tekjuaukningu. Hlutdeild þeirra sem voru í topp 2-4% í tekjudreifingunni var nokkurnveginn stöðug allt tímabilið (Þeir voru með ca. 2,5x meðaltekjur allt tímabilið.) Sama gildir þá sem voru í topp 5-10% í tekjudreifingunni.
Þess vegna er enn svakalegra að tekjuaukning topp 10% þjóðarinnar var meira en fjórföld - í prósentum - tekjuaukning tekjulægstu 20% þjóðarinnar.
Hagvöxtur bóluhagkerfisins endaði semsagt í aldeilis ótrúlegum mæli í vösum 1% þjóðarinnar. En þar að auki jukust tekjur tekjuhæsta hluta millistéttarinnar mun hraðar en tekjur hinna tekjuminni.
Ætli það sé þetta sem menn eiga við þegar þeir segja 'Stétt með stétt'?
Þessi þróun er sérstaklega áhugaverð í ljósi þess að framleiðni jókst ekkert sérstaklega mikið á Íslandi á þessu tímabili. Þvert á móti - við drógumst aftur úr í OECD. Brauðmolakenning frjálshyggjunnar gengur annars út á að það sé gott að hinir ríku verði enn ríkari, því þá geti hinir orðið feitir á því sem hrýtur af borðum hinna ríku. En á Íslandi frjálshyggjunnar var ekki um neitt slíkt að ræða. Þeir ríku urðu bara ríkari á kostnað allra hinna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ólögleg lán
1.7.2010 | 12:14
Hér eru nokkrir punktar sem ég vil halda til haga í tenglsum við ólöglega gengistryggð lán.
1. Ef dómurinn stendur - sem hann hlýtur að gera - þá er um að ræða svipaða stöðu og fyrir um 30 árum síðan, þar sem óðaverðbólgan í kjölfar olíukreppunnar át upp húsnæðislán fólks. Sumar fjölskyldur gátu nánast endurgreitt óverðtryggðu húsnæðislánin af vasapeningunum á meðan aðrar fjölskyldur börðust áratugum saman við að endurgreiða verðtryggð lán. Munurinn fólst í því hvort viðkomandi hafði keypt heimili sitt nokkrum árum fyrr eða seinna.
Ef menn vilja tala um óréttlæti í þessu sambandi, þá er óréttlætið ekki meira eða annars kyns en í fjölda annarra tilfella þar sem menn eignast hluti ódýrt - til dæmis þegar gengi hlutabréfa hækkar, húsnæðisverð hækkar osfrv.
2. Sumir halda því fram að hækka þurfi samningsbundna vexti ólöglega gengistryggðu lánanna til þess að tryggja fjármálastöðugleika. Með fjármálastöðugleika er átt við að eigið fé fjármálafyrirtækjanna lækki ekki of mikið.
Ef nauðsynlegt er að vísa til fjármálastöðugleika, þá er það vegna þess að fjármálafyrirækin hafa ekki lagalegan rétt á þessum hærri vöxtum. Annars væri vísað í þann lagalega rétt - fjármálafyrirtæki eru ekki óvön því að beita þess háttar röksemdafærslum.
Þannig að í raun er verið að segja að lántakendur eigi að leggja fjármálafyrirtækjunum til aukið eigið fé. Þegar menn leggja fyrirtækjum til eigið fé, þá eignast þeir venjulega hlut í fyrirtækinu. Sama gildir ef ríkið bjargar fyrirtækjunum með eiginfjárframlagi, þá eignast það fyrirtækin.
Hér er ætlast til þess að lántakendur gefi fyrirtækjunum peninga án þess að fá neitt á móti, svo að ríkið komist hjá því að kaupa eiginfjárhlut í sömu fyrirtækjum. Það er algjörlega fráleitt.
Eigið fé er hlutdeild eigandans í fyrirtækinu. Þegar eigið fé er upp urið, þá hafa fyrrverandi eigendur ekkert tilkall til fyrirtækisins lengur. Hvorki 'viðskiptafræðilega' né siðferðilega. Ef það þarf að 'bjarga' SP og Lýsingu, þá ætti það að vera sjálfsagt og augljóst að eigendur fyrirtækjanna eru þar með orðnir fyrrverandi eigendur.
3. Fram hefur komið að þessi lán hafa verið ólögleg í áratug, og að amk. samtök fjármálafyrirtækja vissu þetta fullvel. Þetta vissu menn líka í lögfræðideildum og stjórnum fjármálafyritækjanna, hjá FME, Seðlabankanum osfrv. Það er augljóst.
Það var hins vegar ekkert gert í þessu, og það var ekki af vanrækslu. Það var vegna þess að Íslendingar vildu ekki afskipti hins opinbera af svona hlutum. Hugmyndafræðilegur sigur frjálshyggjunnar á Íslandi var algjör. (Enda á bannið upptök sín hjá ESB og IMF.)
Markmiðið með því að banna gengistryggingu lána er m.a. að vernda fólk gegn því að taka of mikla áhættu í fjármálum fjölskyldunnar. Þess háttar ríkisafskipti - að vernda fólk fyrir sjálfu sér - voru ekki comme-il-faut á Íslandi þegar þessi lán voru tekin og veitt. Og eru það væntanlega ekki enn.
Margir héldu að þetta væri lang ódýrasta leiðin til þess að fjármagna húsnæðiskaup - menn geta rétt ímyndað sér hvernig viðbrögðin hefðu verið ef lánin hefðu stoppuð.
Það er rétt að hafa þetta í huga í framtíðinni. Til dæmis þegar upp koma hugtök eins og forræðishyggja, "nanny-state" eða "big mother".
Fjármál | Breytt 2.7.2010 kl. 08:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Komment um greiðsluaðlögun
18.12.2009 | 14:46
Þetta er vandasamt mál að henda reiður á. Ég er sammála þér um bankinn ætti að tapa peningum á því að lána manninum. Það er ótækt að áhættan af því að sjást ekki fyrir sé öll lögð á neytandann, en að nánast engu leyti á atvinnumanninn sem hann semur við. Eins ætti bankinn að hafa ráðgjafarskyldu, þeas skyldu til þess að segja viðskiptavininum að hann hafi ekki efni á því að kaupa hús ef greiðslubyrðin er hærri en heildartekjurnar. Sá sem gerði þetta greiðslumat hefur augljóslega ekki verið vakandi í vinnunni þann dag.
Grunnurinn að vanda þessa tiltekna manns virðist þó samkvæmt lýsingu hæstaréttar fyrst og fremst vera sá að örorkubæturnar duga engan veginn til þess að framfleyta honum og þremur börnum, sama hvort hann býr í leiguhúsnæði eða eigin íbúð. Árið sem hann keypti íbúðina var greiðslubyrðin af íbúðinni hærri en tekjur hans. Egill Helgason birti nýlega frásögn tekjulágrar konu sem gat ekki fengið lánað til þess að kaupa sér íbúð þó greiðslubyrðin myndi verða lægri en húsaleigan. Það er hin hliðin á þessarri stöðu - ekki að það afsaki bankann í þessu tiltekna máli.
Á móti ráðgjafarskyldu bankans kemur, eins og þú segir, að lántakandinn ber sjálfur ábyrgð á því að ráðast ekki í fjárfestingar sem hann hefur ekki efni á.
Það sem ég er að reyna að nálgast er, að það eru tvær hliðar á þessu máli. Í fyrsta lagi þá hefur löggjöf, sérstaklega neytendalöggjöf, varðandi fjármálamarkað og varðandi greiðsluerfiðleika og greiðsluþrot verið í ólestri á Íslandi svo lengi sem elstu menn muna. Það er ótækt að ein mistök geti hneppt fólk í ævilanga fátækt, hundelt af 'kröfuvakt' og öðru slíku. Greiðslujöfnunarlögin eru tilraun til þess að bæta þessa stöðu. Að því leyti til getur viðmiðið ekki átt að vera hvort viðkomandi hafi hagað sér á "ámælisverðan hátt", heldur hvort hann muni fyrirsjáanlega geta borgað skuldina.
Í öðru lagi verður löggjöf um greiðsluaðlögun að vera þannig að menn hafi ekki hvata til þess að kaupa sér dýra hluti og taka mikla áhættu í von um að skuldirnar gufi síðar upp, eða að taka ný lán eftir að þeim er ljóst að það stefni í greiðsluaðlögun. Ég er ekki að segja að þetta hafi verið tilfellið hjá þessum manni, heldur að almennt séð verði að skipta áhættunni þannig að bankinn hafi hvata til þess að gera vandað greiðslumat og veita sæmilega ráðgjöf, og að lántakandinn hafi ekki hvata til þess að reisa sér hurðarás um öxl. Það er væntanlega þetta sem menn hafa átt við þegar þeir settu skilyrðið um "ámælisverðan hátt" inn í lögin, enda stendur það við hliðina á skilyrði um að menn megi ekki taka lán með "ráðnum hug" um að leita greiðsluaðlögunar.
Lögin um greiðsluaðlögun (24/2009) stefna augljóslega að því að ná þessum markmiðum, en án þess að þekkja þetta tiltekna dæmi í meiri smáatriðum er erfitt að átta sig á því hvort undantekningarákvæðin sem beitt er í þessu tilfelli séu of breitt orðuð. Það virkar óneitanlega sem svo að það hefði verið sanngjarnt að fella niður hluta af skuldum þessa manns. En spurningin hlýtur að vera hvernig væri hægt að laga lögin, þannig að jafnvægið yrði betra?
Týndi áratugurinn
9.12.2009 | 08:44
Taflan hér til hliðar sýnir framleiðni pr. vinnustund í OECD. Þetta kemur úr danskri skýrslu (CEPOS, tilvitnun felur ekki í sér meðmæli að öðru leyti).
Tölurnar sýna kaupmátt þjóðartekna deilt með þeim fjölda vinnutíma sem þurfti til að 'skaffa' þjóðartekjurnar. Þetta er besti mælikvarðinn á efnahagslega velferð, og gefur í raun til kynna hversu hátt tímakaup þjóðarbúið greiðir borgurunum, þegar allt er tekið með í reikninginn.
Þar sem þetta kemur úr danskri skýrslu, þá eru tölurnar 'staðlaðar' með því að nota dönsku tölurnar sem grunn. (Þeas að framleiðnin er gefin upp sem hlutfall af framleiðni í Danmörku.)
Taflan talar um margt sínu máli. Árið 1998 voru Íslendingar númer 19 af 29 í OECD. Við höfðum svipaðar tekjur af hverri vinnustund og Spánverjar.
Á áratugnum fram til 2008 - bóluárunum, íslensku gullkortaöldinni, öld frjálshyggjunnar - dróst Ísland afturúr hinum OECD löndunum. Reyndar lækkuðum við bara um eitt sæti, en það helgast af því hversu fátæk löndin sem eru neðar en við voru til að byrja með.
Löndin sem hafa minni framleiðni en við eru lönd eins og Grikkland, Slóvakía, Portugal og Ungverjaland.
Hins vegar höfðu Spánverjar 18% meira upp úr hverri vinnustund en Íslendingar árið 2008, en höfðu nánast það sama árið 1998.
Í samanburði við norður evrópsk lönd kemur áratugur frjálshyggjunnar enn ver út. Þjóðverjar höfðu 23% meira upp úr hverri vinnustund 1998, en 40% meira árið 2008. Svíar, sem við jú stöndum framar að flestu leyti, þénuðu 11% meira en við árið 1998 en 27% meira árið 2008.
Auðvitað hefur kreppan einhver áhrif á þetta, en bankahrunið varð þó ekki fyrr en í lok árs 2008, eftir að megnið af þjóðarframleiðslu þess árs var framleidd. Þannig koma áhrif kreppunnar ekki sterkt fram fyrr en við höfum sambærilegar tölur fyrir 2009. Þar að auki verður að hafa í huga að það er líka kreppa í hinum löndunum. Tölurnar eru gerðar upp út frá kaupmætti (PPP), svo ekki er hægt að kenna gengissveiflunum um.
Þannig að niðurstaðan er sú, að þetta var afrakstur bólunnar áður en áhrif kreppunnar voru komin fram. Við drógumst fyrst afturúr, svo fórum við á hausinn.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki verður bókvitið í askana látið
7.12.2009 | 11:52
Maður nokkur gefur í skyn, að gagnrýni á skort fyrrverandi seðlabankastjóra á menntun við hæfi hafi einkum stafað af því að sumir þeirra sem gagnrýndu hafi sjálfir verið hagfræðingar.
Það er fyndið til þess að hugsa að maður þessi hefur sjálfur ritað kennslubækur í hagfræði, án þess þó að hafa sjálfur þegið kennslu í hagfræði. Og hlaut stöðu lektors við háskólann þó hann hafi ekki verið metinn hæfur af þeirri nefnd, sem skipuð var til matsins. Enda hefur viðkomandi menntun í sagnfræði og heimspeki, en gegnir stöðu prófessors í stjórnmálafræði.
Maður gæti freistast til þess að dylgja um að skoðanir Hannesar Hólmsteins á gildi formlegrar menntunar ættu rætur í aðstæðum hans sjálfs.
En það væri að leggjast lágt. Jafn lágt og þetta.
80 ára þagnarbindindi um launin mín
3.12.2009 | 13:25
Egill Helgason birtir bréf manns um lögin varðandi gögn sannleiksnefndarinnar. Bréfið virðist byggja á þeim skilningi sem kemur fram í ótrúlega slakri frétt Stöðvar tvö um lagafrumvarpið.
Þessi lög fjalla um tvennt:
Í fyrsta lagi að rannsóknanefndin megi birta hvaða upplýsingar sem er í skýrslunni, þó það brjóti trúnað, bankaleynd og persónuverndarákvæði, og að það sé ekki hægt að kæra starfsfólk nefndarinnar fyrir þetta.
Í öðru lagi, að þeir gríðarlegu gagnagrunnar sem rannsóknarnefndin hefur verði gerðir aðgengilegir fyrir rannsóknir annarra aðila á hruninu. Þjóðskjalasafn Íslands geymi þessa gagnagrunna, og að hægt verði að fá aðgengi að þeim til rannsókna á hruninu.
Í þessum gagnagrunnum eru svo til allar fjárhagsupplýsingar um svo til alla Íslendinga, ekki bara þá sem komu að hruninu. Væntanlega stendur þarna til dæmis hvort og hversu mikið Egill Helgason hefur millifært á konuna sína á árinu 2007 og hvað Höskuldur Kári Schram hefur í laun. Auðvitað verður svona gagnagrunnur að vera þannig að ekki sé hægt að fletta upp á einstökum aðilum. Það er bara lógík fyrir búrhænur.
Þetta eru ekki lög um að ritskoða skýrsluna.
Þetta eru ekki lög um að skýrslan verði ekki birt.
Það stendur ekki orð í þessum lögum um niðurstöður nefndarinnar, annað en að ekki sé hægt að kæra starfsfólkið fyrir að birta þær.
Þetta er semsagt aðgerð til þess að tryggja að starfsfólk nefndarinnar geti birt niðurstöðurnar án þess að óttast hefndaraðgerðir, og til þess að auka aðgengi fræðimanna að því að gera rannsóknir á gagnagrunninum.
Samt trompast hópur manna, með Egil Helgason í fararbroddi, og þeir verstu tala eins og það sé verið að fremja glæpi gegn mannkyninu.
Og svo er talað um "spunamaskínu Samfylkingarinnar". Þetta mál er ætti að vera hreinræktaður winner fyrir hvaða almannatengil sem er. Það er þessum svokölluðu "spunameisturum" til ævarandi skammar að svona rugl umræða geti hafa komið upp um þetta mál.
Hvernig getur það verið að það fyrsta sem almenningur heyrir af þessu máli sé frétt á Stöð 2, þar sem kemur ekki einusinni fram til hvers þetta sé gert eða hvaða upplýsingar séu í gagnagrunninum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frábært
28.11.2009 | 11:00
Það er þarft, hagkvæmt og réttlátt að skattleggja arðgreiðslur einkahlutafélaga á sama hátt og launagreiðslur.
Útfrá hagkvæmnisjónarmiði á ekki að skipta máli hvað tekjur manna eru kallaðar, eða í hvaða reit þær eru skrifaðar í bókhaldinu. Tekjur eru tekjur, og það felst sóun í því að skattareglurnar ýti undir að menn ráði til sín lögfræðinga og endurskoðendur til þess að stofna skúffufyrirtæki, halda fyrir þau bókhald og svo framvegis. Hagkvæmara væri að lögfræðingarnir og endurskoðendurnir ynnu að því að skapa verðmæti.
Eins er það fullkomlega óréttlátt að menn geti lækkað skatthlutföll sín með brellum sem í raun eru ekkert nema hrókeringar á blaði.
Tökum sem dæmi iðnaðarmann sem hefur reksturinn í einkahlutafélagi. Þá er það, í teoríunni, einkahlutafélagið sem vinnur verkin, kaupir til þess vinnuafl iðnaðarmannsins og borgar honum laun fyrir. Launin eru auðvitað lægri en tekjurnar, svo það standa peningar eftir í hlutafélaginu sem iðnaðarmaðurinn fær í arð.
En þessi teoría hefur engin tengsl við raunveruleikann, því einkahlutafélagið er ímynduð persóna sem ekki finnst í raunveruleikanum. Í raun er það iðnaðarmaðurinn sem vinnur verkin og fær borgað fyrir þau. En hann sleppur ódýrar í skatt, af því að hann borgar endurskoðanda fyrir að redda því.
Og að síðustu má benda á, að skattlagning arðgreiðslna milli fyrirtækja dregur úr líkunum á að ein stærsta meinsemd útrásarsamfélagsins fái þrifist: nefnilega einkahlutafélagaflækjurnar. Þessar samstæður skúffufélaga sem höfðu tvö markmið: að koma í veg fyrir að nokkur utanaðkomandi (td. bankar og eftirlitsaðilar) gæti skilið hver ætti hvaða fyrirtæki, og að auðvelda mönnum að koma fé undan skatti. Þeim mun hærra sem arðgreiðslur milli fyrirtækja eru skattlagðar, þeim mun meiri líkur eru á að menn hafi beina eignaraðild að fyrirtækjum sínum. Þetta er hlutur sem að ósekju mætti taka upp, fyrst á annað borð er verið að fikta í skattlagningu einkahlutafélaga.
Hluti arðgreiðslna skattlagður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Arion
22.11.2009 | 14:26
Superfreakonomics
11.11.2009 | 09:44
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Myndlygar
9.10.2009 | 12:42
Egill Helgason bendir á að á þeim myndum sem fylgja þessarri 'fréttaskýringu' sé, auk bankamanna og embættismanna, að finna myndir af tveim ráðherrum: Björgvini G. Sigurðssyni og Árna Mathiesen. En í fundargerð stjórnar Glitnis frá því að ákvörðunin sem um er fjallað var tekin kemur fram að hún hafi verið 'í samráði við' Geir Haarde og Árna Mathiesen. Hvergi er minnst á Björgvin G.
Nú gæti einhver sagt að Björgvin hafi verið ráðherra bankamála. Og það er rétt, þó margt bendi til þess að hann hafi haft minni aðkomu að málefnum bankanna en eðlilegt hefði verið - Sjálfstæðisflokkurinn og Davíð Oddsson hafi stýrt þar eftir hentugleikum. En auðvitað er Björgvin einn þeirra sem bera ábyrgð.
Aðrir gætu sagt að það sé ólíklega tilviljun að þarna sé ráðherra samfylkingarinnar spyrtur við mál sem fyrst og fremst tengist Sjálfstæðisflokknum - í gegnum forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann sem voru beinir þáttakendur í gjörningnum, og í gegnum þann Illuga Gunnarsson, nefndarmann í Efnahags- og skattanefnd og núverandi þingflokksformann, sem sat í stjórn sjóðsins sem verið var að redda.
Þann Illuga Gunnarsson sem í fimm ár var aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar, núverandi ritstjóra Morgunblaðsins.
Hvað sem því líður, þá er ljóst af fundargerðum stjórnar Glitnis að það var Geir Hilmar Haarde sem beitti sér persónulega til þess að fá Glitni til þess að kaupa bréf FL og Stoða úr peningamarkaðssjóði Illuga. En þó er engin mynd af honum með frétt Morgunblaðsins. Hans er heldur ekki getið á lista hinna ábyrgu.
Ætli það sé bláa höndin sem þarna fer með penna?
Landsbankinn: Almenningur borgar vegna ákvarðana embættismanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)